Heim / PC leikir / Íslenskur tölvuleikur lofar góðu
Hverju viltu fylgjast með?  Þitt er valið

Íslenskur tölvuleikur lofar góðu

Tölvuleikurinn Prismatica

Hvað færðu ef þú blandar saman Rubik’s Cube, sexhyrningi, Sudoku og koffíni? Ofvirkan tölvuleikjahönnuð sem hannar tölvuleik sem er að vekja mikla lukku og ekki einu sinni komin út.

Tölvuleikurinn Prismatica er hannaður af Þórði Matthíassyni, forritara og eðalnördi.  Í þessum skrifuðu orðum situr Þórður límdur fyrir framan tölvuskjáinn og leggur lokahönd á frumgerðina af leiknum sínum en Þórði var boðið að mæta með tölvuleikinn á tölvuleikjahátíðina Radius Festival í London næstkomandi föstudag 20. júní 2014.

Það eru stórtíðindi fyrir Prismatica og Þórð því það sem byrjaði sem áhugamál gæti nú orðið að einhverju svo miklu stærra og meira. Leikurinn hefur ekki bara komið Þórði og vinum hans á óvart heldur einnig tölvuleikjaspilurum úti í heimi og hefur leikurinn meðal annars komist í lokaúrtak A MAZE tölvuleikjaverðlauna og verið tilnefndur sem besti væntanlegi tölvuleikurinn 2014 á IMGA verðlaunahátíðinni sem haldin var í San Francisco fyrr á þessu áru.

Fréttamaður esports.is spilaði beta test, en leikurinn gengur út á að raða saman réttum litum á frekar flókin hátt sem minnir á töfrateninginn (e. Rubik’s Cube), en til gamans má geta að í ár eru liðin fjörutíu ár frá því að Ungverjinn Ernõ Rubik fann upp töfrateninginn.

Tónlistin í Prismatica leiknum er svo ekki af verri endanum en það er Svavar Knútur sem ljáði Prismatica hæfileika sína.  Í fyrstu þótti fréttamanni þetta vera auðveldur leikur og var fyrsta level frekar auðvelt, en þegar komið var á þriðja level, þá var nær ómögulegt að leysa þrautirnar og var t.a.m. klukkutíminn fljótur að líða.

Reikna má með leiknum á Iphone og Android í lok sumars og fljótlega eftir það verður hann aðgengilegur fyrir venjulegar heimilistölvur.

Prismatica hefur fengið góðar viðtökur, t.a.m. hjá tölvuleikjasíðunum Greenlit Gaming og Indielicious en hægt er að nálgast nánari upplýsingar um leikinn með því að smella hér.

 

Mynd: loomus.com/prismatica

 

Um Chef-Jack

Chef-Jack er matreiðslumaður að mennt og hefur verið með pennann á lofti til fjölda ára og skrifað mikið um tölvuleiki og allt sem snýr að Íslensku tölvuleikjasamfélaginu. Hægt er að hafa samband við Chef-Jack á netfangið: esports@esports.is

Svara

Fara í tækjastiku