Heim / PC leikir / Nördalegasta flúr Íslands fundið
Hverju viltu fylgjast með?  Þitt er valið

Nördalegasta flúr Íslands fundið

Þann 19. febrúar hóf nördavefurinn Nörd Norðursins, í samstarfi við Bleksmiðjuna, leitina að nördalegasta flúrinu á Íslandi. Eigendur nördalegra flúra höfðu mánuð til að senda inn myndir og sækja um þátttöku í keppninni um nördalegasta flúr Íslands.

Í fréttatilkynningu segir að alls bárust 69 myndir af nördalegum flúrum frá 50 þátttakendum, flúrin tengdust tölvuleikjum, ofurhetjum, teiknimyndasögum, vísindaskáldskap, hrollvekjum og öðru nördalegu.  Almenningur valdi nördalegasta flúrið á Facebook síðu Nörd Norðursins, þar sem notendur gátu kosið með því að „líka“ við myndirnar af flúrunum. Það flúr sem var vinsælast og hlaut flest „lík“ sigraði.

Oddur Gunnarsson, 22 ára nemi í tækniteiknun í Tækniskólanum, bar sigur úr bítum en flúrið hans af „Skull Kid“ úr tölvuleiknum The Legend of Zelda: Majoras Mask hlaut alls. 1.420 atkvæði.  Oddur segist hafa fengið sér flúrið vegna þess að Zelda sé hans uppáhalds tölvuleikjasería, sem megi líkja við listaverk. Oddur ber einnig Triforce-merkið úr Zelda leikjunum og Kodama fígúrur úr kvikmyndinni Princess Mononoke á sér. „Skull Kid” flúrið hans Odds hlýtur titilinn “Nördalegasta flúr Íslands” en auk þess fær Oddur 25.000 kr. inneign upp í nýtt flúr hjá Bleksmiðjunni.

Dómnefnd sem samanstóð af fulltrúm frá Nörd Norðursins og flúrstofunni Blekmiðjunni völdu flúr sem vermir annað sætið. Það var afskaplega erfitt að gera upp á milli flúra að mati dómnefndar, þar sem valið stóð á milli virkilega vandaðra og nördalegra flúra. Í lokin komst dómnefnd að niðurstöðu og var Albert Einstein flúr sem Óskar Hallgrímsson ber fyrir valinu, en Óskar fékk sér Einstein á handleggnum sem virðingarvott fyrir honum og því sem hann hefur lagt til vísindanna. Til gamans má geta að Óskar er einnig með Star Trek merkið flúrað á bringuna.
Óskar hlýtur 10.000 kr. inneign upp í flúr hjá Bleksmiðjunni.

Myndir af öllum flúrunum má nálgast á heimasíðu Nörd Norðursins hér.

Fréttatilkynning

Um Chef-Jack

Chef-Jack er matreiðslumaður að mennt og hefur verið með pennann á lofti til fjölda ára og skrifað mikið um tölvuleiki og allt sem snýr að Íslensku tölvuleikjasamfélaginu. Hægt er að hafa samband við Chef-Jack á netfangið: [email protected]

Svara